Öflugur fasteignaleitarvefur með einföldu og notendavænu viðmóti sem býður upp á ítarlegar upplýsingar um fasteignir, þróun verðlags og fróðleik um fasteignamarkaðinn.
Íbúðaverð hækkaði á milli mánaða í september. Ástæða fyrir því var að sérbýli hækkuðu talsvert í verði á milli mánaða. Sérbýlin hafa verið ansi sveiflukennd undanfarna mánuði. Sérstaklega fáir kaupsamningar liggja að baki síðustu mánuði sem gæti útskýrt þessar miklu sveiflur.
19 október 2022
Íslandsbanki
Greiningadeild Íslandsbanka
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% í septembermánuði frá mánuðinum á undan samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem birtust í gær. Í síðasta mánuði lækkaði mánaðartakturinn smávegis í fyrsta sinn í nær þrjú ár en nú hefur hann hækkað á ný í september. Vísitala íbúðaverðs byggir á þriggja mánaða meðaltali og má leiða líkum að því að ágústmánuður hafi verið sérstaklega rólegur á íbúðamarkaði.
Ástæða fyrir hækkun vísitölunnar er sú að verð á sérbýli hækkar um 4,8% á milli mánaða en verð á fjölbýli lækkar hins vegar smávegis eða um 0,1% á sama tíma. Verð á íbúðum í sérbýli er almennt sveiflukenndara en verð á íbúðum í fjölbýli þar sem færri kaupsamningar liggja að baki í fyrrnefnda eignaflokknum. Síðustu mánuðir hafa þó verið ansi sveiflukenndir eins og sést á myndinni hér að neðan.
Alla jafna eru kaupsamningar á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu frekar fáir samanborið við íbúðir í fjölbýli eins og gefur að skilja. En á undanförnum mánuðum hafa þeir verið sérstaklega fáir. Í ágúst var 69 kaupsamningum á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu þinglýst og í júlí voru þeir 76 en tölur fyrir septembermánuð hafa ekki verið birtar. Á síðustu 10 árum hafa kaupsamningar á sérbýlum verið að meðaltali 107 á mánuði. Þetta er líklega ein helsta ástæða fyrir því að liðurinn hefur verið jafn sveiflukenndur og raun ber vitni.
Dregið hefur úr árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu tvo mánuði í röð og mælist 12 mánaða hækkun nú 22,5% í september en árstakturinn náði toppi í júlí þegar hækkunin mældist 25,5%. Árshækkun á íbúðum í fjölbýli mælist 22,3% en í sérbýli um 23,9% í septembermánuði.
Við gáfum út verðbólguspá í síðustu viku þar sem spáðum því að reiknaða húsaleigan myndi lækka um 0,15% í október eftir að hún stóð í stað í september. Í ljósi nýrra gagna um vísitölu íbúðaverðs teljum við líklegri niðurstöðu að reiknaða húsaleigan muni hækka um 0,5% í október (0,10% áhrif á VNV). Hafa verður í huga að Hagstofan mælir íbúðaverð um allt landið og sveiflurnar á íbúðaverði verða því alla jafna minni.
Þessi breyting á reiknuðu húsaleigunni verður til þess að VNV hækkar um 0,3% á milli mánaða og ársverðbólga mun mælast 9,0% gangi spáin eftir. Skammtímaspáin fyrir aðra mánuði helst óbreytt og hljóðar uppá 0,1% hækkun VNV í nóvember, 0,3% hækkun í desember og 0,3 lækkun í janúar. Gangi sú spá eftir mun verðbólga mælast 7,7% í janúar.
Íbúðamarkaður hefur kólnað mjög hratt á síðustu mánuðum en þrátt fyrir það virðist enn vera talsverð eftirspurn til staðar. Það verður áhugavert að sjá hvernig þróunin á íbúðamarkaði verður á næstu mánuðum. Það er nokkuð ljóst að aðgerðir Seðlabankans, sem hækkaði vexti og herti á lánaskilyrðum á síðustu misserum, eru farnar að hafa áhrif á markaðinn. Nýjasta mæling vísitölu íbúðaverðs gæti þó bent til þess að þau áhrif séu minni þegar kemur að sérbýlum.